Sagan

1990

  • Vegagerðin gerði lauslega úttekt á hugsanlegum jarðgöngum undir Vaðlaheiði. Miðað var við 7,2 km löng göng með munna í u.þ.b. 70 m y.s. nálægt Halllandsnesi og 160 m y.s. í Fnjóskadal, ofan gömlu Fnjóskárbrúarinnar. Þessi kostur var síðan kynntur í Jarðgangaáætlun 2000, m.a. með korti sem sýnir legu ganga nálægt því sem að lokum var ákveðin.

2002

  •  Hreinn Haraldsson og Kristín H. Sigurbjörnsdóttir unnu greinargerðina Göng undir Vaðlaheiði sem einkaframkvæmd - frumskoðun. Þar var áfram miðað við framangreinda jarðgangaleið, farið yfir áætlaðan stofnkostnað, viðhalds- og rekstrarkostnað, tekjumöguleika og upphæð veggjalda.
  • Á fundi sínum 30 ágúst 2002 skipaði stjórn Eyþings - sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum - nefnd til undirbúnings fyrir stofnun félags um framkvæmd og rekstur jarðganga undir Vaðlaheiði. Í nefndina voru skipaðir: Ásgeir Magnússon Akureyri, Kári Arnór Kárason Akureyri og Helgi Kristjánsson Húsavík. Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, starfaði með nefndinni. Þessari þriggja manna nefnd var annars vegar falið að kanna áhuga einkaaðila (fjárfesta) á því að taka þátt í stofnun félags um undirbúning að gerð ganganna, framkvæmd og rekstur þeirra og hins vegar að kanna nokkrar mismunandi fjármögnunarleiðir, einkum með mismunandi þátttöku ríkisins í huga. Ásgeir Magnússon var kosinn formaður nefndarinnar, sem skilaði af sér skýrslu 18. desember 2002. Niðurstaða hennar var að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði væri tæknilega einföld framkvæmd og fjárhagslega vel framkvæmanleg. Þó yrði ekki ráðist í verkefnið án þátttöku ríkisins. Áhugi einkaaðila á verkefninu myndi ráðast nokkuð af því hvaða viðtökur hugmyndin fengi hjá stjórnvöldum. Eðlilegast væri að viðræður við ríkisvaldið, sveitarstjórnir og aðra þá sem hugsanlega vildu koma að verkefninu væru í höndum stjórnar undirbúningsfélags um byggingu ganganna. Nefndin taldi að sem næsta skref væri réttast að Eyþing boðaði til stofnfundar undirbúningsfélags fyrir gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Verkefni stjórnar undirbúningsfélagsins yrði til að byrja með að afla verkefninu stuðnings með kynningu og viðræðum við allar sveitarstjórnir á áhrifasvæði jarðganganna, verkefnið yrði kynnt fyrir þingmönnum Norðausturkjördæmis, ráðherra samgöngumála og Vegagerðinni auk forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana á áhrifasvæði jarðganganna.

 2003

  • Stofnfundur einkahlutafélags um undirbúning að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði með 4.410.000 kr. hlutafé var haldinn í Valsárskóla á Svalbarðseyri 28. febrúar. Stofnendur félagsins voru öll 20 sveitarfélög innan vébanda Eyþings og tíu fyrirtæki á svæðinu: Alli Geira hf., Brim hf., Flytjandi/Eimskip hf., Grímur ehf. , Kaupfélag Eyfirðinga, Norðlenska ehf., Norðurmjólk ehf., SBA-Norðurleið hf., Skipaafgreiðsla Húsavíkur ehf. og Vélsmiðja Steindórs ehf.  Á stofnfundi voru þrír stærstu hluthafarnir Akureyrarbær, sem skráði sig fyrir 36% stofnfjár, Kaupfélag Eyfirðinga með 23% og Þingeyjarsveit með 11%. Greið leið ehf. var samþykkt sem nafn á hið nýja félag. Í stjórn félagsins voru kjörnir: Andri Teitsson, Ásgeir Magnússon og Pétur Þór Jónasson. Varamenn voru kjörnir Jóhann Guðni Reynisson og Bjarni Jónasson. Pétur Þór var kjörinn formaður stjórnar á fyrsta stjórnarfundi 24. mars 2003.
  • Stjórn Greiðrar leiðar átti fund með Sturlu Böðvarssyni, þáverandi samgönguráðherra, 22. september þar sem hún kynnti málið fyrir honum.  Ráðherra benti á að endurskoðun samgönguáætlunar færi fram á haustþingi 2004 og sagðist telja eðlilegt að stjórn Greiðrar leiðar legði áherslu á að fá Vaðlaheiðargöng inn í áætlun við þá endurskoðun. Styrkur Vaðlaheiðarganga, og um leið sérstaða, væri sá að ríkinu væri ekki ætlað að fjármagna framkvæmdina nema að minnihluta, enda ætluðu heimamenn og notendur framkvæmdarinnar að standa undir meirihluta framkvæmdakostnaðar.
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, kynnti á aðalfundi Eyþings í september hugmyndir um virkjun Fnjóskár samhliða gerð Vaðlaheiðarganga.  Málið var rætt á stjórnarfundi Greiðrar leiðar 26. nóvember þar sem kom fram að hugmyndirnar væru athyglisverðar en nauðsynlegt væri að fá úttekt á þeim.

 2004

  • Lögð var fram á Alþingi þingsályktunartillaga sex þingmanna með Hlyn Hallsson, varaþingmann VG, sem fyrsta flutningsmann, um að Alþingi feli samgönguráðherra að kanna til hlítar í samráði við heimamenn grundvöll þess að ráðast í gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í umsögn um tillöguna mælti stjórn Greiðrar leiðar með samþykkt hennar á Alþingi.
  • Á stjórnarfundi 8. janúar var samþykkt að Greið leið felldi virkjun í Fnjóská út úr sinni athugun og myndi bera saman jarðgangakosti, þ.e. staðsetningu ganganna ásamt vegtengingum, óháð hugmyndum um virkjun.
  • KEA lagði Greiðri leið til 5 milljónir króna til undirbúningsrannsókna. Stjórn Greiðrar leiðar samþykkti að leita eftir stuðningi ríkisvaldsins á móti framlagi KEA til þess að ljúka rannsóknum.
  • Jarðfræðirannsóknir í Vaðlaheiði hófust síðla árs. Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur hjá Jarðfræðistofunni ehf., var fenginn til verksins. Verksamningur við Jarðfræðistofuna var undirritaður 31. desember.

2005

  • Jón Þorvaldur Heiðarsson kynnti Greiðri leið hugmyndir sínar um tvenn jarðgöng, annars vegar undir Vaðlaheiði og hins vegar undir Vaglafjall. Heildarlengd jarðganga yrði þá 11,3 km, þar af 4 km undir Vaglafjall og stytting milli Akureyrar og Stórutjarna í Ljósavatnsskarði yrði 22 km. Niðurstaða stjórnar Greiðrar leiðar var að ekki væri raunhæft að vinna að gerð  jarðganga undir bæði Vaðlaheiði og Vaglafjall og myndi stjórnin einbeita sér að undirbúningi jarðganga undir Vaðlaheiði á svokallaðri Skógaleið. 
  • Vegagerðin kynnti tvær tillögur að veglínum að mögulegum gangamunnum og jafnframt tvo möguleika á vegtengingu út á Svalbarðsströnd.
  • Upplýst var á stjórnarfundi Greiðrar leiðar 13. maí að ríkið væri ekki tilbúið að leggja fé til rannsókna á Vaðlaheiðargöngum. Stjórn Greiðrar bókaði að þessi niðurstaða væri mikil vonbrigði.
  • Á aðalfundi Greiðrar leiðar var samþykkt að auka hlutafé í félaginu í allt að 100 milljónir króna.
  • Á fundi með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra 18. ágúst kynnti stjórn Greiðrar leiðar annars vegar að Vegagerðin tæki að sér vegtengingar að gangamunnum og annaðist gerð samninga við landeigendur vegna framkvæmdanna. Einnig að félagið gæti áfram átt aðgang að sérfræðingum Vegagerðarinnar varðandi ráðgjöf um ýmsa þætti varðandi framkvæmdina. Hins vegar að ríkið tæki þátt í framkvæmdakostnaði ganganna með 500 milljóna króna stofnframlagi og að virðisaukaskattur yrði felldur niður af framkvæmdakostnaði líkt og gert var í Hvalfjarðargöngum, enda væri gert ráð fyrir innheimtu veggjalda. Einnig að ríkið veitti ábyrgð á lánum Greiðrar leiðar.
  • Unnið var að rannsóknaborunum í Vaðlaheiði í október og nóvember og annaðist Ræktunarsamband Flóa og Skeiða þær en Ágúst Guðmundsson hjá Jarðfræðistofunni ehf. hafði yfirumsjón með þeim.

 2006

  • Í janúar var kynnt skýrsla Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um mat á þjóðhagslegri arðsemi Vaðlaheiðarganga.  Megin niðurstöður skýrslunnar voru annars vegar að þjóðhagslegur heildarábati framkvæmdarinnar væri tæplega 1,2 milljarðar króna, þ.e. ábatinn væri tæpum 1,2 milljörðum kr. hærri en kostnaðurinn við framkvæmdina.  Hins vegar að arðsemi framkvæmdarinnar væri um 7,9%, eða með öðrum orðum að þjóðfélagið myndi fá 7,9% arð af því fé sem kostaði að gera göngin. Skýrslan var kynnt samgönguráðherra á Akureyri 13. janúar.
  • Kynnt var ný hluthafaskrá Greiðrar leiðar að lokinni aukningu hlutafjár í röskar 75 milljónir króna. Stærsti hluthafinn að lokinni hlutafjáraukningu var Akureyrarbær með 48% hlutafjár, KEA með 30% og Þingeyjarsveit með 9%.
  • Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi 20. september að jarðgöng undir Vaðlaheiði væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Til grundvallar lá kynningarskýrsla Greiðrar leiðar frá júní 2006 um jarðgöng undir Vaðlaheiði ásamt vegtengingum.

2007

  • Í janúar var kynnt í stjórn Greiðrar leiðar skýrslan Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum jarðgangagerðar í Skógum, unnin af Bryndísi Zoëga og Guðnýju Zoëga hjá fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga.
  • Fulltrúar Vegagerðarinnar kynntu á fundi með stjórn Greiðrar leiðar 31. maí að ríkinu væri óheimilt að ganga til samninga við Greiða leið um framkvæmdina og bæri að bjóða út svokallað sérleyfi til að gera og reka Vaðlaheiðargöng.
  • Samkvæmt könnun Capacent í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum fyrir Greiða leið reyndust 92% svarenda vera hlynnt göngum undir Vaðlaheiði. Samsvarandi könnun Rannsóknastofnunar HA árið 2002, en þá var aðeins spurt í Eyjafirði, leiddi í ljós 63% stuðning við Vaðlaheiðargöng.
  • Jarðfræðistofan skilaði skýrslu um jarðfræðirannsóknir í Vaðlaheiði. Rannsóknirnar leiddu í ljós að göngin myndu að stærstum hluta skera basaltlög með misþykkum millilögum, sem sum væru margra metra þykk, gerð úr fornri gjósku og með lágan brotstyrk. Slík lög væru mest á austurhluta jarðgangaleiðarinnar. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í almennum samanburði við veggöng hérlendis mætti ætla að basaltið í Vaðlaheiði væri í betra meðallagi til gangagerðar en setbergslögin í lakara meðallagi.
  • Tíðir fundir voru milli fulltrúa Greiðrar leiðar og samgönguyfirvalda um mögulega greiðslu ríkisins fyrir undirbúningsgögn vegna Vaðlaheiðarganga. Engin niðurstaða fékkst.

2008

  • Alþingi samþykkti 29. maí tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010 með 54 samhljóða atkvæðum, 9 voru fjarverandi. Í greinargerð með tillögunni segir m.a.: Í gildandi samgönguáætlun 2007-2010 er gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði fjármögnuð með sérstakri fjáröflun. Nú liggur fyrir hver sú fjáröflun er. Göngin verða fjármögnuð í einkaframkvæmd með veggjöldum, sem standa munu undir helmingi kostnaðar. Gert er ráð fyrir að hluti ríkisins í göngunum greiðist með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.
  • Þegar þessi niðurstaða lá fyrir skipaði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri stýrihóp til að undirbúa gangagerðina. Í stýrihópnum voru: Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, formaður,  Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar, Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Vegagerðarinnar, og Eiríkur Bjarnason,verkfræðingur í samgönguráðuneytinu. Hlutverk hópsins var að velja verkefnisstjóra við einstaka verkhluta, hafa umsjón með framvindu hönnunar og hafa umsjón með forvali og útboði jarðganga og útboði eftirlits vegna þeirra.
  • Fljótlega voru skipaðir verkefnisstjórar og var Gísli Eiríksson verkefnisstjóri við hönnun jarðganga, Guðmundur Heiðreksson, deildarstjóri áætlana og hönnunarkaupa á Norðaustursvæði, var verkefnisstjóri við hönnun aðkomuvega, sá um skipulagsmál, samninga við landeigendur og hafði umsjón með fornleifarannsóknum. Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar, hafði umsjón með forvali og útboðum og Haukur Jónsson, deildarstjóri framkvæmda á Norðaustursvæði, var verkefnisstjóri við gerð bráðabirgðabrúar yfir þjóðveg sem notuð var við flutning á efni úr göngunum.
  • Helstu ráðgjafar við hönnun jarðganganna  voru verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís og Efla og við vegagerð Verkfræðistofa Norðurlands.
  • Á aðalfundi Greiðrar leiðar var eftirfarandi tillaga samþykkt: Aðalfundur Greiðrar leiðar ehf. árið 2008 heimilar stjórn félagsins að ganga til viðræðna við samgönguyfirvöld um sölu, annað hvort á öllum gögnum félagsins eða öllum hlutum í félaginu, eftir því hvernig um semst. Verði niðurstaðan sú að selja alla hluti í félaginu verður leitað heimildar hvers hluthafa fyrir sölu þegar þar að kemur.


2009

  • Á aðalfundi Greiðrar leiðar 30. júní var upplýst að  stýrihópur Vegagerðarinnar um Vaðlaheiðargöng hafi gengið frá forvalsgögnum og skilað þeim frá sér, m.ö.o. væru öll gögn tilbúin fyrir útboð og væri stefnt að því að bjóða verkefnið út í einkaframkvæmd. Til að auðvelda fjármögnun og draga úr óvissu væri hugmyndin að taka vissa áhættuþætti af verktakanum, sem ætlað sé að útvega fjármagn, hanna, framkvæma og reka göngin. Ríkið taki á sig áhættu af umferðarþróun og einnig vissa áhættu af berginu. Gert sé ráð fyrir að framkvæmdaraðilinn fái mánaðarlegar greiðslur á samningstímanum.
  • Þann 29. desember var undirritaður samningur um kaup Vegagerðarinnar á gögnum Greiðrar leiðar ehf. Samningurinn fól í sér að Vegagerðin keypti rannsóknargögn, niðurstöður og skýrslur vegna byggingar og rekstrar fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Samkvæmt samningnum greiddi Vegagerðin Greiðri leið ehf. röskar 117 milljónir króna, þ.m.t. virðisaukaskatt að fjárhæð um 23 milljónir króna, sem Greið leið ehf. skilaði í ríkissjóð. Samningurinn var undirritaður af Pétri Þór Jónassyni f.h. Greiðrar leiðar og Birgi Guðmundssyni f.h. Vegagerðarinnar.

2010

  • Í júní samþykkti Alþingi lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Í 2. grein þeirra er Vegagerðinni heimilað að taka þátt í stofnun hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga sbr.: Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags sem hefur það að markmiði að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Heimilt er Vegagerðinni að eiga allt að 51% hlutafjár í félaginu og leggja til þess hlutafé í samræmi við fjárheimildir. Á fundi með Kristjáni Möller samgönguráðherra 9. ágúst komu fram hugmyndir á grunni þessara laga um stofnun 400 milljóna króna hlutafélags um Vaðlaheiðargöng í eigu Vegagerðarinnar og Greiðrar leiðar. Á fundinum voru einnig kynntar viðræður við lífeyrissjóði um fjármögnun og undirbúningsvinna Vegagerðarinnar. 
  • Í desember slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina vegna ágreinings um vexti. Í framhaldinu samþykkti ríkisstjórnin að fara í skuldabréfaútboð til fjármögnunar samgönguframkvæmda, þar á meðal Vaðlaheiðarganga. Áfram var gert ráð fyrir að verkefnið yrði i höndum félags í eigu Vegagerðarinnar og Greiðrar leiðar í samræmi við lög nr. 97/2010 og að veggjöld stæðu undir framkvæmdakostnaði.
  • Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 10. desember að halda áfram undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga á þeim forsendum að verkefnið yrði fjármagnað úr ríkissjóði með láni til félags sem stofnað yrði með það að markmiði að standa undir kostnaði við gerð ganganna.

2011

  • Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ræddi á fundi á Akureyri um mögulega flýtiframkvæmd og forval vegna Vaðlaheiðarganga.
  • Stofnfundur Vaðlaheiðarganga hf.- félags um gerð ganganna - var haldinn 9. mars. Tveir hluthafar eru í stofndundur VHG 9.03.2011félaginu, Vegagerðin með 51 prósents hlut og Greið leið ehf. með 49 prósenta hlut. Félagið var stofnað á grunni heimildar í lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem Alþingi samþykkti í júní 2010 og er ætlað að standa að gerð Vaðlaheiðarganga ásamt vegalagningu að þeim, auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Hlutafé í félaginu var 20 milljónir króna. Í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. voru skipuð þau Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, Kristján L. Möller, Pétur Þór Jónasson og til vara Huginn Freyr Þorsteinsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir og Halldór Jóhannsson og var stjórninni falið að vinna að gerð Vaðlaheiðarganga í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefnisins. Í stofnskrá kemur fram að Vaðlaheiðargöngum hf. sé heimilt að innheimta gjald fyrir notkun gagnanna og skuli það standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda.
  • Þann 28. mars auglýsti Vegagerðin fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf. forval vegna gerðar Vaðlaheiðarganga auk byggingar forskála og vega og skyldi gögnum skilað inn eigi síðar en 3. maí.
  • Sex aðilar skiluðu inn gögnum vegna forvals; IAV/Marti, Ístak, Mestrostav/Suðurverk, Norðurverk, Per Aarsleff/JKP JV og Leonhard Nilsen & Sönner AS.
  • Þann 5. ágúst var undirritaður samningur við Norðurorku sem kveður á um að tryggt verði að ekki komi til vatnsþurrðar notenda á Svalbarðsströnd vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng.
  • Skilmálaskrá vegna fjármögnunar Vaðlaheiðarganga hf. var undirrituð 17. ágúst, en með henni náðist samkomulag við fjármálaráðuneytið um fjármögnun. Þar kemur m.a. fram að Vaðlaheiðargöng skuldbindi sig til að afla hlutafjár allt að 400 milljónum króna og allt að 600 milljónum króna sem lagðar yrðu inn í félagið.
    Þann 19. ágúst voru útboðsgögn afhent en samkvæmt þeim var gert ráð fyrir verklokum í lok júlí 2015.
  • Í ágúst bauð Vegagerðin sömuleiðis út stöpla og stálbita bráðabirgðabrúar yfir þjóðveg 1 vegna gerðar Vaðlaheiðarganga.
  • Þann 11. október voru opnuð tilboð í gerð Vaðlaheiðarganga og bárust tilboð frá fjórum af þeim sex aðilum sem skiluðu inn forvalsgögnum. Fyrirtækin sem buðu í verkið voru IAV/Marti (Ísland - Joint Venture) kr. 8.853.134.474 (95,0%), Norðurverk (Ísland - samstarfshópur) kr. 9.488.706.534 (101,8%), Ístak hf (Ísland) kr. 9.901.752.795 (106,2%) og Metrostav-Suðurverk (Ísland - Joint Venture) kr. 10.849.427.276 (116,4%).

2012

  • Þann 16. febrúar samþykkti hluthafafundur í Greiðri leið ehf. tillögu stjórnar um að hækka hlutafé félagsins um allt að 200 milljónir króna.
  • Þann 14. júní samþykkti Alþingi með 29 atkvæðum gegn 13 heimild til handa fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að ríkið láni Vaðlaheiðargöngum hf. allt að 8,7 milljarða króna til gangagerðarinnar m.v. verðlag í árslok 2011 og skuli félagið sjálft, eignir þess og tekjustreymi vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu. Lánasamningurinn var undirritaður í desember.
  • Verktakafyrirtækið G. Hjálmarsson hóf þann 7. ágúst að grafa frá væntanlegum gangamunna Eyjafjarðarmegin og í framhaldinu voru steyptir stöplar brúar yfir þjóðveg 1 vegna gangagerðarinnar.
  • Í samræmi við lánasamning og skilmálaskrá var hlutafé í Vaðlaheiðargöngum aukið í 400 milljónir króna. Eignarhlutur hluthafa eftir hlutafjáraukninguna var óbreyttur, Vegagerðin með 51% hlut og Greið leið ehf. með 49%. Lánasamningur kveður á um aukningu hlutafjár í 600 milljónir króna með árlegum 40 milljóna króna greiðslum á árabilinu 2013-2017 og komi sú aukning frá Greiðri leið.
  • Á hluthafafundi í Vaðlaheiðargöngum hf. 8. október óskaði Kristín H. Sigurbjörnsdóttir lausnar úr stjórn. Í hennar stað var kjörinn Birgir Guðmundsson. Aðrir stjórnarmenn voru Huginn Freyr Þorsteinsson og Pétur Þór Jónasson, sem tók við stjórnarformennsku í Vaðlaheiðargöngum hf.

2013

  • Samningar undirritaðir 1. febrúar við ÍAV/Marti um gerð Vaðlaheiðarganga. Fyrirtækið Ósafl, sem er í eigu ÍAV/Marti, er framkvæmdaaðilinn. Tilboð verktakans í október 2011 hljóðaði upp á 8,8 milljarða en það var uppfært miðað við hækkun byggingarvísitölu og nam við undirskrift um 9,3 milljörðum króna. Jafnframt voru undirritaðir samningar við fyrirtækin Geotek og Eflu um eftirlit með framkvæmd verksins.
  • Í mars samþykkti stjórn Vaðlaheiðarganga hf. ráðningu Valgeirs Bergmanns Magnússonar í stöðu framkvæmdastjóra félagsins og var hann valinn úr hópi 36 umsækjenda um stöðuna.
  • Þann 2. apríl hófst vinna við gerð Vaðlaheiðarganga með greftri á lausu efni í forskeringum Eyjafjarðarmegin. Vinna við bergskeringar Eyjafjarðarmegin við gangamunnann hófst 18. apríl.
  • Fyrsta jarðgangasprengingin var 3. júlí 2013 og var um var að ræða lítið skot í miðjum stafni alls um 15 rúmmetrar. Þess má geta að fullt snið / heill salvi er um 340 rúmmetrar.
  • Föstudaginn 12. júlí 2013 sprengdi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, svokallaða viðhafnarsprengingu eða "ráðherrasprengingu" í vestari gangamunna Vaðlaheiðarganga og markaði hún formlegt upphaf jarðgangaframkvæmdanna.
  • 1000 metrum var náð þann 1. nóvember.
  • Hlutafjáraukning varð í Vaðlaheiðargöngum hf. í árslok og hækkaði hlutur Greiðrar leiðar ehf úr 49% í 53,64%. Að sama skapi lækkaði hlutur ríkissjóðs úr 51% í 46,36%.

2014

  • Þann 16. febrúar kom verktaki að vatnsæð um 1.900 metrum inn í Vaðlaheiði með 46°C heitu vatni og 350 l/s stöðugu rennsli. Hitinn á vatninu hækkaði jafnt og þétt því innar sem farið var í fjallið.
  • Þann 21. mars voru göngin orðin tvegga kílómetra löng frá Eyjafirði.
  • Þann 15. ágúst var ný stjórn Vaðlaheiðarganga hf. kjörin; Pétur Þór Jónasson, Unnar Jónsson og Jón Birgir Guðmundsson.stjórnarmenn VHG hf ágúst 2014
  • Verktaki hætti gangagreftri Eyjafjarðarmegin 25. ágústm, þegar lokið var við 2.695 metra og flutti borvagn og annan búnað yfir í Fnjóskadal og var fyrsta sprenging fyrir jarðgöngum þar 6. september.
  • Þann 19. október var heildarlengd ganganna um þrír kílómetrar.
  • Í árslok 2014, þegar starfsmenn fóru í jólafrí, voru göngin orðin 3.420 metra löng eða 47,5% af heildarlengd ganganna.

  • 2015
  • Aðfaranótt 6. febrúar náði verktakinn þeim áfanga að hafa sprengt sem svarar helmingi Vaðlaheiðarganga, 3.603 metrar. Í tilefni af þessum áfanga færði Vaðlaheiðargöng hf. starfsmönnum veglega köku með kaffinu. 
  • Aðfaranótt 18. apríl kom fram vatnsleki úr misgengissprungu Fnjóskadalsmegin í göngunum. Vatnið reyndist vera níu gráðu heitt. Að kvöldi 18. apríl var fyrirséð að dælur hefðu ekki undan og var því ákveðið að fjarlæga öll verðmæti úr göngum. Um miðjan dag 19. apríl var vatnsborð komið að hæsta punkti ganganna og byrjað að renna út um göngin. Mest varð rennslið 520 lítrar á sekúndu þann 20. apríl. Mánuði síðar hafði það minnkað niður í 370 lítra á sekúndu.

  • Í byrjun júlí var rennslið Fnjóskadalsmegin komið niður í 280 lítra á sekúndu og í Eyjafirði 113 lítra á sekúndu.

  • Fyrsta steypa vegskála Fnjóskadalsmegin var 18. ágúst.

  • Stjórnendur Ósafls og Vaðlaheiðarganga skoðuðu aðstæður í Vaðlaheiðargöngum Fnjóskadalsmegin 22. september á árabáti. Með í för voru fréttamaður og tökumaður frá RÚV sem gerðu frétt, sem vakti mikla athygli, um þessa óvenjulegu aðstæður í göngunum.

    2016

  • Um miðjan janúar var búið að grafa samtals1.475 metra í Vaðlaheiðargöngum eða 65% af heildarlengd ganganna.

  • Um miðjan janúar hófst fylling flughlaðs á Akureyrarflugvelli með efni úr Vaðlaheiðargöngum.

  • Um miðjan mars streymdu um 100 sekúndulítrar af köldu vatni út úr göngunum Eyjafjarðarmegin og um 120 sekúndulítrar Fnjóskadalsmegin.

  • Þann 11. apríl var lengd ganganna orðin 5.065 metrar, 70% af heildarlengd ganganna.

  • Í síðustu viku nóvember hrundi setberg úr lofti ganganna Eyjarfjarðarmegin og olli skemmdum á borvagni. Ekki var búið að styrkja svæðið en borvagninn var að bora fyrir bergboltum þegar hrundi niður á bómuna. Engan sakaði.

    2017

  • Verktakinn hóf aftur vinnu eftir þriggja vikna jólafrí þann 3. janúar. Fyrstu vikuna voru boraðir 32,5 metrar og voru göngin þá orðin 5.024 metrar Eyjafjarðarmegin 1.620 metrar Fnjóskadalsmegin. Samtals voru göngin þá orðin 6.644 metrar eða 92% af heildarlengd ganganna og ósprengt um 561 metri. Áætlað gegnumslag í lok febrúar.

  • Um miðjan janúar töfðu þykk setbergslög fyrir gangagreftrinum. Setið var með lágan bergstyrk og hrundi auðveldlega niður úr lofti, því þurfti að fara styttri færur, ca.1,5 meter á dag í stað 5 metra í einu, og styrkja jafnóðum. Setlögin komu mönnum ekki á óvart þar sem fram kom í rannsóknarskýrslu að búast mætti við setlögum sem þessum. Könnunarholur verktaka sýndu að búast mætti við sömu setbergslögum næstu 40 metrana.

  • Jón Gunnarsson, nýr ráðherra samgöngu-, fjarskipta- og byggðamála heimsótti gangamenn í  Vaðlaheiðargöngum 14. janúar. Með honum í för var Kristján Möller fyrrverandi ráðherra samgöngumála.

  • Eftir langvarandi erfiðar aðstæður í gangagreftrinum komust gangamenn loksins undir lok mars í gegnum erfiðustu setlögun og gröfturinn fór að ganga betur og hraðar. Akstur efnis í flughlaðið á Akureyrarvelli hófst aftur um mánaðamótin mars-apríl eftir nokkurt hlé. Áætlað var að keyra um 5.000 rúmmetrum í þessum áfanga.

  • Síðasta sprenging Fnjóskadalsmegin var 16. apríl. Í kjölfarið var undirbúin bygging vegskála Fnjóskadalsmegin.

  • Loksins var komið að gegnumslagi í Vaðlaheiðargöngum 28. apríl 2017. Af því tilefni bauð verktakinn til opins húss þar sem fólki gafst tækifæri til þess að koma í heimsókn og kynna sér jarðgangagerðina og þau tæki og tól sem tengdust framkvæmdinni.

  • Þann 30. maí var aðalfundur Vaðlaheiðarganga hf. haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Í stjórn voru kjörnir Friðrik Friðriksson rekstrarráðgjafi, skipaður af fjármála og efnahagsráðherra í stað Andra Teitssonar sem var kjörinn varamaður hans í stjórn, Ágúst Torfi Hauksson og Pétur Þór Jónasson. Varamenn voru kjörnir Halldór Jóhannsson og Dagbjört Jónsdóttir. Að loknum aðalfundinum var efnt til málþings um Vaðlaheiðargöng og var Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, fundarstjóri.

  • Þann 1. júní samþykkti Alþingi viðbótarfjármögnun til lúkningar Vaðlaheiðarganga.

  • Úrslit voru kynnt í hugmyndasamkeppni Eims um nýtingu á lághitavatni á Norðurlandi eystra. Tillaga Stefáns Tryggva og Sigríðarssonar, eiganda Hótels Natur á Svalbarðsströnd, var valin sú besta í samkeppninni en hann setti fram áhugaverða tillögu um nýtingu á heitu vatni úr Vaðlaheiðargöngum í einskonar baðhellum.

  • Þórólfur Guðnason í Lundi í Fnjóskadal sagði frá því í Akureyri vikublaði 15. júní, á 98 ára afmælisdegi sínum, að hann ætti sér þann draum lifa það að fara í gegnum Vaðlaheiðargöng. Forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga hf. höfðu strax samband við hann og buðu honum og Jóni syni upp á bíltúr í gegnum göngin í afmælisgjöf.

  • Hitamet sumarsins var slegið 25. júlí í Fnjóskadal, 27,7 gráður. Daginn eftir, 26. júlí, var einnig svo hlýtt að verktakinn ákvað að fresta steypuvinnu við skálann og hefja hana ekki fyrr um miðjan dag og vinna langt fram á kvöld.

  • Um mánaðamótin ágúst/september óskaði Vegagerðin, f.h. Vaðlaheiðarganga hf., eftir tilboðum í gerð stjórnkerfis í Vaðlaheiðargöng. Stjórnkerfið hefur það hlutverk að fylgjast með ástandi í göngunum, skrá það, stjórna loftræsingu og láta vita af öllum bilunum og ef skapast hættuástand. Innifalið í verkinu er smíði stjórn- og neyðarsímaskápa, iðntölvubúnaður, forritun búnaðarins samkvæmt verklýsingu, prófun búnaðarins og gerð handbóka um kerfið. Tilboð voru opnuð 19.september og voru Rafmenn ehf frá Akureyri lægstbjóðendur í verkið, 72,3 milljónir króna, 80,7% af kostnaðaráætlun.

  • Þann 12. október var hafist handa við að leggja slitlag á veginn frá jarðgangamunnanum Fnjóskadalsmegin.

  • Fyrsti hluti vegskálans Eyjafjarðarmegin var steyptur 20. október.

    2018

  • Í febrúar heimsóttu fulltrúar Vaðlaheiðarganga Færeyjar og kynntu sér jarðgangagerð og gjaldtöku í tvennum jarðgöngum þar. Notast er við sömu tækni í Færeyjum við innheimtu veggjalda og horft hefur verið til í Vaðlaheiðargöngum, þ.e. að myndavélar taki myndir af númeraplötum bifreiða sem fara í gegnum göngin.Á aðalfundi Vaðlaheiðarganga hf. 11. maí voru kjörnir í stjórn Hilmar Gunnlaugsson, Ágúst Torfi Hauksson og Pétur Þór Jónasson.

  • Malbikun á miðsvæði ganganna hófst 4. júlí og annaðist Hlaðbær Colas þann verkþátt.

  • Föstudaginn 7. september var gefin út sameiginleg fréttatilkynning Vaðlaheiðarganga hf. og Ósafls sf. þar sem kemur fram að staðfest hafi verið samkomulag um verklokadag Vaðlaheiðarganga og að Ósafl myndi afhenda göngin tilbúin til umferðar föstudaginn 30. nóvember og miðað væri við að göngin yrðu opnuð fyrir umferð 1. desember. Jafnframt var gert samkomulag um uppgjör og greiðslu bóta til verktakans skv. Úrskurði sáttanefndar sem starfaði skv. Ákvæðum verksamningsins. Bæturnar, sem námu á verðlagi samningsins 1.379 milljónum króna, áttu sér fyrst og fremst rót í áhrifum af meiri jarðhita á gangaleiðinni en gert var ráð fyrir. Samkvæmt fréttatilkynningunni gerði verkkaupi ágreining um bótafjárhæðina og áskildi sér rétt, í samræmi við reglur verksamningsins, að fara með hann fyrir dómstóla.
  • Þann 12. september hófst malbikun í göngunum Fnjóskadalsmegin.Rafmenn, sem sjá um gerð stjórnkerfis fyrir Vaðlaheiðargöng, afhentu verkkaupa stjórnskápa þann 13. september. Skáparnir eru settir upp í tæknirýmum ganganna og hafa það hlutverk að stýra loftræstingu ganganna, láta vita af bilunum ef skapast hættuástand o.fl. Úttekt á stjórnbúnaði ganganna var 19. nóvember og gekk hún vel. Í lok september hóf Ósafl að vinna að því að tengja nýjan veg frá austari gangamunnanum að brúnni yfir Fnjóská.
  • Þann 28. október lauk malbikun neðra lags í öllum göngunum. Þá var eftir að malbika frá vegskála austan megin að nýju hringtorgi.
  • Gjaldskrá Vaðlaheiðarganga var kynnt á fréttamannafundi 11. desember. Jafnframt var vefsíðan veggjald.is opnuð.