Verndardýrlingur jarðgangamanna skv. kaþólskri trú er heilög Barbara og er fæðingardagur hennar 4.desember, að því tilefni heldur Ósafl svokallaða Barböruhátíð henni til heiðurs. Styttu með líkneski af Barböru hefur verið komið fyrir í læstum skáp við gangamunna og mun hún vaka yfir og vernda þá sem vinna í göngunum.
Heilög Barbara er lýst sem viljasterkri og sjálfstæðri konu sem hafði til að bera mikið hugrekki og kjark. Hún fæddist árið 218 í borginni Necomediu í Tyrklandi. Faðir hennar lokaði hana inn í turni þegar hann komst að því að hún hafði gerst kristin og sótt skóla hjá kristnum lækni. En Barbara veitti viðnám og fékk smiði til að gera þrjá glugga á turninn sem átti að tákna föður, son og heilagan anda. Þannig opinberaði hún kristna trú sína. Faðir hennar gerði allt sem hann gat til að fá hana til að afneita kristni, en allt kom fyrir ekki. Einnig neitaði hún að giftast þeim manni sem faðir hennar hafði valið handa henni. Þetta og fleira varð til þess að Barbara var dæmd til dauða. Faðir Barböru bauðst sjálfur til þess að aflífa hana og hjó hann af henni höfuðið með sverði. Þar sem hann stóð yfir líki dóttur sinnar laust niður eldingu í sverðið og dó hann samstundis. Á þetta var litið sem teikn um hefnd guðs. Þannig varð Barbara verndardýrlingur gegn alls kyns hættum er stafa af náttúruhamförum og gegnir víða miklu hlutverki meðal kaþólskra manna. Þá er Barbara sérstakur verndardýrlingur námuverkamanna, vopnasmiða, steinsmiða, jarðfræðinga, slökkviliðsmanna, vitavarða, múrara, byggingamanna ofl.
Þess má geta að Kapelluhraun sem er sunnan við álverið í Straumsvík hefur nafn sitt af kapellu heilagrar Barböru sem fannst í hrauninu árið 1950 en áður hét þetta hraun Nýjahraun.