Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, sprengdi í dag svokallaða viðhafnarsprengingu í gangamunna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin og markaði um leið upphaf hinnar eiginlegu gangagerðar. Fjöldi gesta var viðstaddur, m.a. alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar Vegagerðarinnar og aðalverktakans við gerð ganganna, forsvarsmenn fyrirtækja á svæðinu og fjölmiðlafólk. Að sprengingunni lokinni var gestum boðið upp á veitingar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Vaðlaheiðargöng hf., sem eru í eigu Vegagerðarinnar (51%) og Greiðrar leiðar ehf. - undirbúningsfélags heimamanna (49%) er verkkaupi, en fyrirtækið Ósafl annast gerð ganganna fyrir ÍAV hf. og svissneska fyrirtækið Marti Contractors Lts, sem stóðu sameiginlega að lægsta tilboðinu í gangagerðina þegar þau voru opnuð í október 2011, 8,8 milljarðar króna. Verksamningar voru undirritaðir á Akureyri 1. febrúar sl. og var uppfært tilboð ÍAV og Marti 9,3 milljarðar króna, en heildarkostnaður við gangagerðina, þ.m.t. rannsóknir, undirbúning, bráðabirgðabrú, eftirlit og greiðslukerfi, er áætlaður um 11,5 milljarðar króna.
Geotek ehf. og Efla verkfræðistofa hafa fyrir hönd verkkaupa eftirlit með jarðgangagerðinni.
Vaðlaheiðargöng hf. voru stofnuð 9. mars 2011 á grunni heimildar í lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sem Alþingi samþykkti í júní árið 2010. Hlutafé í félaginu var í upphafi 20 milljónir en er nú 400 milljónir kr. Til ársins 2017 mun Greið leið auka hlut sinn í félaginu um 200 milljónir og þá nemur heildarhlutafé félagsins 600 milljónum króna. Að þessari hlutafjáraukningu lokinni mun Greið leið ehf. eiga 66% hlut í Vaðlaheiðargöngum hf.
Þann 14. júní 2012 samþykkti Alþingi heimild til handa fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að ríkið láni Vaðlaheiðargöngum hf. allt að 8,7 milljarða króna til gangagerðarinnar m.v. verðlag í árslok 2011 og skyldi félagið sjálft, eignir þess og tekjustreymi (veggjöld) vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.
Vaðlaheiðargöng tengja saman Eyjafjörð og Fnjóskadal. Gangamunni vestan heiðarinnar er í landi Halllands en austari gangamunninn verður skammt frá bænum Skógum í Fnjóskadal. Göngin sjálf verða tæpir 7,2 km, með vegskálum verða þau 7,5 km. Heildarlengd tengivega beggja megin ganganna verður 4,1 km. Í tengslum við vegagerðina Eyjafjarðarmegin verður síðar gert hringtorg á þjóðveginum sem deilir umferðinni annars vegar í Vaðlaheiðargöng og hins vegar norður Svalbarðsströnd. Byggð hefur verið bráðabirgðabrú yfir þjóðveg 1 á Svalbarðsströnd, sem mun eingöngu nýtast verktökum við gangagerðina á framkvæmdatímanum. Að gangagerðinni lokinni verður brúin fjarlægð.
Í samanburði við akstur um Víkurskarð nemur stytting þjóðvegar 1 með Vaðlaheiðargöngum um 16 km.
Gert er ráð fyrir að sjálfri gangaboruninni ljúki haustið 2015 og verkinu verði að fullu lokið í árslok 2016.
Nánari tækniupplýsingar:
Lengd ganganna: 7,17 km
Breidd ganganna í veghæð: 9,5 m
Heildarlengd vegskála: 308 m
Vegskáli Eyjafjarðarmegin: 84 m
Vegskáli Fnjóskadalsmegin: 224 m
Vegir að göngum: 4,1 km
Vegur Eyjafjarðarmegin: 1,2 km auk hringtorgs
Vegur Fnjóskadalsmegin: 2,9 km
Gröftur jarðganganna (fast berg): 500.000 rúmmetrar
Sprautusteypa: 25.000 rúmmetrar
Forskering: 100.000 rúmmetrar
Fylling: 400.000 rúmmetrar
Vaðlaheiðargöng verða hálfum öðrum metra víðari en veggöng hér á landi til þessa, sem má rekja til nýrra staðla.
Gert er ráð fyrir að út úr Vaðlaheiðargöngum verði ekið á bilinu 30 til 40 þúsund vörubílsförmum af efni og í sprengingarnar má ætla að fari um 1000 tonn af sprengiefni.
Vegagerðin stjórnaði hönnun og voru ráðgjafar hennar við hönnunina í þessu verki Mannvit, Verkís, Efla og Verfræðistofa Norðurlands. Vegagerðin sá um hönnun á veglínu. Hönnunarstjóri er Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar.