Eins og vera ber aka margir erlendir ferðamenn í gegnum Vaðlaheiðargöng og er hlutfall þeirra hærra yfir sumarmánuðina en yfir vetrarmánuðina.
Ef skoðaðar eru tölur yfir þá útlendinga sem hafa greitt veggjald fyrir akstur í Vaðlaheiðargöngum frá því þau voru opnuð í ársbyrjun kemur í ljós að Bandaríkjamenn eru þar efst á blaði, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Frakkar í því þriðja. Í haust hefur mynstrið breyst eilítið, eftir sem áður eru Bandaríkjamenn og Þjóðverjar efstir á blaði en síðan koma Kínverjar í þriðja sæti. Samkvæmt tölum sjö síðustu daga er óbreytt að Bandaríkjamenn verma efsta sætið, Þjóðverjar eru í öðru sæti og Kínverjar í því þriðja. Í fjórða sæti eru Frakkar og Taiwanar eru í því fimmta.
Áhugavert er að sjá að Kínverjar og Taiwanar eru þarna ofarlega á blaði, sem er í samræmi við að hlutfallslega fleiri Asíubúar eru hér á landi á haustin og veturna í samanburði við sumarmánuðina. Ætla má að ástæðan sé fyrst og fremst áhugi fólks úr þessum heimshluta að sækja landið heim þegar dag tekur að stytta á ný til að freista þess að sjá hér norðurljós.
Tölur um fjölda erlendra ferðamanna eftir þjóðernum sem greiða veggjald í Vaðlaheiðargöng ríma nokkuð vel við tölur Isavia um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu. Í september voru Bandaríkjamenn sem næst 25% þeirra sem fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll, í öðru sæti voru Þjóðverjar – 7,8% og Bretar í þriðja sæti – 6,4%.