Nú er sprengingum lokið í bili og fær verktaki um 2 vikna kærkomið jólafrí enda er verktaki búinn að standa sig vel og er verkið um 6 vikur á undan áætlun. Nú er lokið við að sprengja 1.371 metra frá Eyjafirði sem gerir um 55 metra á viku að meðaltali. Berggæði hafa almennt verið góð og lítið vatn að trufla gangagröft. Mestu afköst voru í viku 50 þar sem göngin lengdust um 83,5m en í viku 46 voru afköst 19m þar sem farið var í gegnum sprungusvæði sem þurfti að styrkja sérstaklega. Í jarðfræðiskýrslum sem gerðar voru til undirbúnings jarðganganna var áætlað að jarðgöngin fari í gegnum 40 slík sprungusvæði og vatn verði um 5-25 l/s á hvern km eftir gegnumbrot. Nú er rennslið um 19 l/s og 13°C heitt.